Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara greiddi alls 108,6 milljónir króna vegna flutninga á gasolíu (dísil-, véla- og skipagasolíu) vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun frá vorinu 2003 og til loka síðasta árs.
Ef tekið er tillit til inngreiðslna í sjóðinn vegna framkvæmdanna, sem voru 35,8 milljónir króna, er mismunurinn 72,8 milljónir króna. Neytendur greiða í dag 0,76 krónur af hverjum seldum lítra af gasolíu í Flutningsjöfnunarsjóð.
„Þetta er ekki eðlilegt og ekki hlutverk sjóðsins," segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra en Flutningsjöfnunarsjóður heyrir undir hans ráðuneyti.
„Sjóðurinn á að niðurgreiða olíuverð til staða þar sem samkeppni er engin, þar sem markaðsbrestir eru og fyrirtæki sjá sér ekki hag í að halda úti þjónustu. Það eitt er eðlilegt og til þess var sjóðurinn stofnaður. Hinar greiðslurnar þykja mér hins vegar óeðlilegar og þær undirstrika nauðsyn þess að leggja sjóðinn niður. Það þarf að leggja niður sértækar lausnir og koma á almennu fyrirkomulagi á flutningsjöfnun þar sem hennar er þörf út frá byggðasjónarmiðum."
Björgvin frestaði því nýverið til 1. september á næsta ári að leggja Flutningsjöfnunarsjóðinn niður. Hann hefur skipað starfshóp um framtíðarfyrirkomulag flutningsjöfnunar undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns sem á að skila af sér í síðasta lagi 1. júní á næsta ári.
„Þessari nefnd er ætlað alvöru hlutverk. Mér fannst ótækt að leggja sjóðinn niður áður en búið væri að fara yfir málið. Þess vegna á nefndin að skila af sér 1. júní. Það er mín pólitík í þessu," segir viðskiptaráðherra.