Búið er að draga Súluna EA á flot í innsiglingunni í Grindavík. Það var björgunarskipið Oddur V. Gíslason, sem náði að losa skipið eftir nokkrar tilraunir en Súlan er drekkhlaðin af fiski. Eru skipin nú á leið til Grindavíkurhafnar.
Auk Odds V. Gíslasonar voru björgunarbátarnir Villi, Árni í Tungu og Áskell sendir á staðinn. Varðskip var einnig sent áleiðis og þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þrettán manna áhöfn er um borð í Súlunni. Talið er að stýrisbúnaður hafi bilað og það hafi valdið því að skipið fór af réttri siglingarleið.