Um hundrað manns fylgdust með því er kveikt var á ljósasúlunni Imagine Peace Tower eftir Yoko Ono í Viðey klukkan tólf mínútur yfir fjögur í dag en það var í síðasta sinn á þessu ári sem kveikt verður á súlunni.
Berglind Ólafsdóttir sem stödd er í Viðey, sagði við blaðamann mbl.is í dag, að athöfnin hefði verið falleg og skemmtileg og að fólk á öllum aldri hafi gert sér ferð út í eyjuna til að taka þátt í henni. Þá sagði hún þátttöku erlendra skiptinema í dagskrá sem fram fór í Viðey í dag hafa sett sterkan og mjög viðeigandi svip á daginn.
Slökkt verður á súlunni á miðnætti og lýkur þar með fyrsta tveggja mánaða tímabilinu sem kveikt er á verkinu en til stendur að ljósið logi frá fæðingardegi Johns Lennon 9. október ár hvert til og með dánardegi hans 8. desember.
Boðið hefur verið upp á fjölbreytta dagskrá í Viðey í dag að þessu tilefni og hefur fólki m.a. gefist kostur á að skapa sín eigin friðarljós og friðarkveðjur. Þá fór fram friðarstund í Viðeyjarkirkju og að henni lokinni var farin kyndlaganga að listaverkinu.
Klukkan níu í kvöld og hugsanlega einnig klukkan ellefu verður boðið upp á siglingu frá Skarfabakka í Sundahöfn að verkinu og það skoðað frá sjó. Mun Einar Ágúst leika Bítlalög á meðan á siglingunni stendur. Að henni lokinni verður lagt að bryggju í Viðey og farið í kyndilgöngu að súlunni.