Ökumaður virti lokanir lögreglu að vettugi á slysstað á Reykjanesbraut síðdegis í gær. Keyrði maðurinn í gegnum vettvanginn þrátt fyrir að ljóst væri að af því stafaði mikil hætta fyrir þá sem voru við störf á vettvangi, lögreglumenn og sjúkraflutningamenn auk hættunnar sem athæfið skapaði fyrir þá sem verið var að hlúa að á slysstaðnum. Fleiri ökumenn gerðu tilraunir til að aka í gegnum vettvanginn.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki séu til neinar tölur um hversu algeng hegðun sem þessi er. "Þetta er ekki algengt. Hins vegar ofbýður nánast öllum hegðun af þessu tagi. Við höfum horft upp á þetta í banaslysum áður þar sem þurft hefur að loka um langan tíma, jafnvel til að reyna að bjarga mannslífum. Það er því miður alltaf eitthvað um það að einstaklingar telji sig vera yfir það hafnir að bíða og hlýða fyrirmælum lögreglu. Þetta er alveg vítaverð hegðun. Þegar menn fara framhjá lokunum af þessu tagi þá liggur klár og einbeittur ásetningur að baki. Fólk verður að fara að hugsa. "