Slökkvilið Suðurnesja barðist í morgun við eldsvoða í bílaporti við höfnina í Vogum á Vatnsleysuströnd. Útkallið kom skömmu fyrir klukkan sex er nágrannar vöknuðu við sprengingar. Eldur logaði í átta bílum og stórum plastbáti.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn og voru til þess kjöraðstæður, stillt og kalt. Engin slys urðu á mönnum.
Að sögn Sigmundar Eyþórssonar slökkviliðsstjóra tókst slökkviliðinu að koma í veg fyrir að eldur bærist í nærliggjandi byggingar, verkstæði og gámastæður en þarna logaði einnig í plastkörum og öðru lauslegu.
Sigmundur sagði að sér þætti ólíklegt að eldur gæti borist á milli bílaraðanna í portinu með eðlilegum hætti því að bílarnir hefðu staðið í tveimur röðum með góðu bili á milli.
Hann bætti því við að þetta væri annar bruninn á 12 tímum á svæðinu því kvöldið áður hefði slökkviliðið þurft að berjast við eld og glæður í torfkofa á hafnarsvæðinu. Engin slys urðu á mönnum.
Í bílaportinu munu 2 til 3 bílar af gerðinni BMW hafa eyðilagst og einn Hummer-jeppi.