Varhugaverðar vörur

Það er barnalegt að ætla að hér á landi sé ekki að finna vörur í verslunum sem framleiddar hafa verið við óviðunandi skilyrði og mannréttindi jafnvel brotin á starfsfólki. Þetta er skoðun Elíasar Þorvarðarsonar, framkvæmdastjóra leikfangaverslananna Leikbæjar og Just 4 Kids. Hann segir það eigi að síður skýra stefnu síns fyrirtækis að segja upp viðskiptum vakni grunsemdir um mannréttindabrot við framleiðslu vöru.

Í sama streng taka Jóhanna Waagfjörd hjá Högum, Magnús Kjartan Sigurðsson hjá Rúmfatalagernum og Svava Johansen hjá NTC. Öll hafa þessi fyrirtæki markað þá stefnu að ekki sé skipt við aðila sem grunaðir eru um mannréttindabrot. Magnús segir að í einu tilviki hafi vaknað grunur um að vörur sem seldar voru í Rúmfatalagernum væru framleiddar við óviðunandi skilyrði úti í heimi. „Í því tilviki tókum við vörurnar úr sölu meðan við rannsökuðum málið. Alþjóðlegt og óháð rannsóknarfyrirtæki var fengið til að skoða þau tvö fyrirtæki sem um var að ræða, án viðvörunar. Í framhaldi af athugasemdum þess var þeim gefinn ákveðinn frestur til úrbóta. Annað fyrirtækið lagaði sig að kröfunum og við höfum tekið vörur þess aftur í sölu. Hitt fyrirtækið gerði það ekki og vörur þess hafa ekki farið aftur upp í hillu.“

Aðilar frá Just 4 Kids, NTC og Högum hafa sótt heim verksmiðjur erlendis og hefur ekkert misjafnt komið í ljós. Elías bendir þó á að eftirfylgni sé erfið. „Markaðurinn á Íslandi er svo lítill að fyrirtæki hafa almennt ekki bolmagn til eftirfylgni. Sú eftirfylgni yrði líka alltaf yfirborðskennd. Okkur er bara sýnt það sem menn vilja að við sjáum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert