Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að landbúnaðarráðherra verði falið að beita sér fyrir eflingu íslenska geitfjárstofnsins. Stórum hluta af einni stærstu geitahjörð landsins var slátrað í nóvember en talið er að um 400 vetrarfóðraðar geitur séu í landinu.
Í þingsályktunartillögunni, sem Jón Björn Hákonarson, varaþingmaður Framsóknarflokksins lagði fram ásamt sjö öðrum þingmönnum, er lagt til að bændur, sem vilja vinna geitfjárafurðir til sölu og þeir sem halda geitfé, verði sérstaklega aðstoðaðir. Einnig verði kannað hvernig fjölga megi stöðum á landinu þar sem geitfjárrækt fer fram.
Þá verði hafnar erfðarannsóknir á stofninum og nýtt til þess þekking sérfræðinga í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og á tilraunastöðinni á Keldum.
Í greinargerð með tillögunni segir, að íslenski geitfjárstofninn sé einstakur í sinni röð fyrir hreinleika sakir. Stofninn sé sá sami frá landnámsöld og þá hafi íslenska geitin sérstöðu hvað varðar tegundir ullar, en fínleiki hennar sé í ætt við kasmírull. Nú sé stofninn stofninn í útrýmingarhættu en geitum hafi fækkað mjög á síðustu árum, einkum vegna þess að þær hafi verið skornar niður á svæðum þar sem greinst hefur riða í sauðfé, þrátt fyrir að aldrei hafi greinst riða í geitfé.