Slysum með alvarlegum meiðslum og banaslysum gangandi vegfarenda hefur fækkað verulega í Reykjavík á síðustu áratugum. Þetta er kemur fram í nýrri skýrslu um „slys á gangandi vegfarendum í Reykjavík" sem unnin var af Línuhönnun fyrir Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar.
„Skoðun almennings virðist þó oft vera sú, að ástandið í umferðaröryggismálum hafi aldrei verið verra og slysum fari sífellt fjölgandi. Staðreyndin er hins vegar sú, að með samstilltu átaki margra aðila hefur verulegur árangur náðst við að fækka slysum, þó að auðvitað megi alltaf gera betur" segir meðal annars í inngangi skýrslunnar, að því er segir í tilkynningu.
Stefán A. Finnsson yfirverkfræðingur á Framkvæmdasviði kynnti skýrsluna á fundi framkvæmdaráðs í morgun. Stefán segir niðurstöður skýrslunnar mjög ánægjulegar, sérstaklega í ljósi þess að búast hefði mátt við fjölgun slysa samfara fjölgun íbúa, lengra gatnakerfi og aukinni umferð. „Umferðinni núorðið er betur stýrt en áður var, m.a. með hringtorgum og umferðarljósum. Með gangbrautarljósum, girðingum og miðeyjum eru þverunarstaðir gangandi vegfarenda orðnir öruggari en áður" segir Stefán. „Göngubrýr og undirgöng hafa gert sitt í að bæta öryggi gangandi vegfarenda og stígakerfið hefur lengst verulega og hönnun þess batnað," samkvæmt tilkynningu.
Erfitt er að meta áhrif hverrar aðgerðar, en heildaráhrifin til fækkunar eru greinileg. Áhrif aðgerðanna virðast vera meiri eftir því sem alvarleiki slysa, sem eru til skoðunar, er meiri. Þetta kemur skýrt fram þegar skoðaður er hlutfallslegur alvarleiki fótgangendaslysa í 30 km hverfum, fyrir og eftir framkvæmdir við hverfin. Breytingin sést greinilega: Það dregur úr alvarleika slysa á gangandi vegfarendum. Alvarlegu slysin sem eru að jafnaði 21% fyrir aðgerðir eru 10% eftir innleiðingu 30 km hverfa, að því er segir í fréttatilkynningu.