Borist hefur eftirfarandi yfirlýsing frá bæjarfulltrúum A-listans í Reykjanesbæ:
„Í umræðum á Alþingi Íslendinga 6. desember sl. varð Bjarna Harðarsyni þingmanni Framsóknarflokksins á mismæli sem hann leiðrétti samdægurs á Alþingi, meira að segja í ræðustól Alþingis, strax sama dag.
Árni Sigfússon bæjarstjóri hunsar þessa leiðréttingu þingmannsins á sínum mismælum og sakar m.a. Bjarna um að segja ósatt og krefst þess að þeir leiðrétti ósannindin í sinn garð.
Þessi viðbrögð Árna eru með ólíkindum, ekki síst í ljósi þess að 8. nóvember sl. birtist grein eftir Árna Sigfússon í Víkurfréttum þar sem hann sakar þrjá bæjarfulltrúa A-listans í Reykjanesbæ, (Eysteinn Jónsson, Guðbrandur Einarsson og Ólafur Thordersen), um að vera að bera út lygasögur um tengsl Árna við fjármálastofnanir og aðra. Ólafur Thordersen spurði bæjarstjóra um þetta á bæjarstjórnarfundi og ákvað bæjarstjórinn að svara ekki.
Ef Árni fer fram á að ósannindi eða öllu heldur mismæli séu löguð, hvað eigum við þrír að gera?
Það að vera ásakaður opinberlega af bæjarstjóra Reykjanesbæjar, um að vera bera út lygasögur er ærumeiðandi og ber að líta á þessi ummæli sem slík. Árni ætti að líta sér nær áður en hann kastar steini úr glerhúsi.
Ólafur Thordersen
Guðbrandur Einarsson
Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ.“