Farbann vegna nauðgunarkæru framlengt

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að Pólverji, sem grunaður er um að hafa framið nauðgun, sæti áframhaldandi farbanni til 18. janúar.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að maðurinn hafi viðurkennt að hafa hitt konu í anddyri skemmtistaðar í Vestmannaeyjum í september og síðan átt kynmök við hana utandyra skammt frá. Í úrskurði héraðsdóms segir, að konan muni atburði kvöldsins í brotum, en muni eftir gríðarlega miklum sársauka þar sem hún hafi legið á grúfu á jörðinni. Hún lýsi einnig áverkum og eymslum sem komi heim og saman við læknisskoðun. 

Í dómi Hæstaréttar segir, að í ljósi þess að kærandi virðist ekki gefa glögga lýsingu á geranda hjá lögreglu og maðurinn beri því við að hann hafi haft „samfarir við einhverja konu“, verði ekki hjá því komist að bíða eftir niðurstöðu úr greiningu lífsýna svo hægt verði að taka ákvörðun um framhald málsins.

Sýnin voru send til Rettsmedisinsk Institutt í Noregi 17. október sl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert