Hætta að fljúga til Baltimore

Icelandair mun breyta áherslum í flugi sínu vestur um haf á næsta ári. Reglulegt áætlunarflug hefst til Toronto í maí, en flugi verður hætt til Baltimore í vetur. Morgunflugi til Boston og New York, sem tekið var upp á síðasta sumri verður haldið áfram í sumar. Lítillega verður bætt við framboð til London á árinu.

Flug til Baltimore mun hætta frá og með 13. janúar 2008, en flug til Toronto mun hefjast 2. maí 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. 

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair segir í fréttatilkynningu að afkoman á flugleiðinni til Baltimore hafi versnað, einkum eftir að nokkur þúsund manna samfélag Bandaríkjamanna í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, hvarf af landi brott.

Lítillega verður aukið við áætlun til London á næsta ári og flogið þangað tvisvar á dag alla daga vikunnar, auk þess sem áfram verður flogið til Manchester og Glasgow í Bretlandi. Þá verður framboð til Kaupmannahafnar svipað og var á síðasta ári og flogið allt að fimm sinnum á dag til borgarinnar á næsta sumri, en fjórum sinnum á dag flesta daga.

Næsta vor mun Icelandair á ný fljúga frá Íslandi til Bandaríkjanna kl.10 að morgni, og býður upp á flug frá París og Frankfurt klukkan átta að morgni til Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert