Innréttingar ríkisins skemmdar

Frá lokadegi í gömlu vínbúðinni Anna Karlsdóttir sótti sér rauðvínsflösku …
Frá lokadegi í gömlu vínbúðinni Anna Karlsdóttir sótti sér rauðvínsflösku til Maríu Aðalsteinsdóttur. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Almennir borgarar hafa gripið til sinna ráða á Seyðisfirði og hindra frekara niðurrif á innréttingum í gamla ríkinu eða Vínbúðinni á staðnum. Innréttingarnar eru eitt hundrað ára. 25 til 30 manns hafa komið sér fyrir í húsnæðinu og hindra að verkamenn geti borið innréttingarnar út. 

Forsprakki verndunarmanna, Pétur Kristjánsson forstöðumaður Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði segist ekki standa fyrir borgaralegri óhlýðni heldur þvert á móti standi hann fyrir því að lög verði ekki brotin.

Á fimmta tímanum var húsið rýmt af lögreglu og verkamenn lögðu niður störf. Ekki hefur fengist staðfest hvort lögbann hefur fengist á niðurrif innréttinganna.

Innréttingarnar eru eitt hundrað ára, upphaflega úr Konráðsverslun í Mjóafirði frá 1897 en voru settar upp í Imslandsverslun á Seyðisfirði 1918.

Í húsinu var um árabil rekin krambúð Thorvalds Imsland og hafa innréttingar hennar staðið óbreyttar síðan. Jafnframt var ríkið, eða Vínbúðin á Seyðisfirði, eins og það heitir réttu nafni, eitt það síðasta í landinu sem afgreiddi varning yfir borðið og þar var ekki um neina sjálfsafgreiðslu að ræða.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins opnaði fyrst áfengisútsölu á Seyðisfirði árið 1922.

Pétur sagðist hafa talað við verkamenn í morgun og beðið þá að stöðva niðurrifið og tóku þeir sér hlé frá vinnu á meðan Pétur ræddi við yfirmenn þeirra hjá ÁTVR og fjármálaráðuneytinu en allt kom fyrir ekki.

Pétur sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann hefði frétt að bæjaryfirvöld  væru að vinna í því að setja lögbann á aðgerðirnar.

 „Við reyndum að stöðva þetta í morgun... Við töluðum við yfirmenn þeirra en þeir gáfu ekki færi á því að það yrði neinn frestur til að semja um eitt né neitt,” sagði Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert