Vel heppnaðri æfingu lokið

Æfingin þótti heppnast vel.
Æfingin þótti heppnast vel. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Æfingunni Samábyrgð 2007 þar sem lögreglustjórar og sóttvarnalæknar  þurftu að bregðast við ímynduðum inflúensufaraldri. Æfingunni sem var stjórnað af ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlækni lauk nú klukkan 17:00 og þykir hafa tekist vel.

Í fréttatilkynningu frá Ríkislögreglustjóra segir að settur hafi verið á svið hugsanlegur ferill heimsfaraldurs inflúensu og voru fréttainnskot Ríkisútvarpsins spiluð á klukkutíma fresti þar sem stigmagnandi áhrifum inflúensunnar var lýst.

Í samræmi við alvarleika ástands hverju sinni leystu þátttakendur úr verkefnum á óvissustigi, hættustigi og neyðarstigi almannavarna eins og um raunverulegan atburð væri að ræða.   

Verkefni sem lögreglustjórar og sóttvarnalæknar umdæma og svæða þurftu að leysa af hendi voru margs konar. Skipulagðar voru takmarkanir á ferðafrelsi fólks til landsins og innanlands til að hefta útbreiðslu flensunnar.

Einnig var æft að framfylgja samkomubanni og skipuleggja flutning og dreifingarstaði nauðsynja og lyfja. Þá skipulögðu aðgerðarstjórnir heimahjúkrun og skimun farþega á landamærastöðvum til að leita að einkennum inflúensu.

Æfingin þykir hafa tekist vel og margvíslegur lærdómur áunnist sem sóttvarnarlæknir og ríkislögreglustjóri munu nýta við frekari skipulagsvinnu vegna undirbúnings viðbragða við heimsfaraldri inflúensu. 

Ríkislögreglustjóri og sóttvarnarlæknir færa öllum þeim fjölmörgu sem þátt tóku í æfingunni þakkir fyrir þeirra framlag og þátttöku í æfingunni. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka