Mörgum borgarbúum þykir Hverfisgatan vera í niðurníðslu. Sumir eru þó bjartsýnir á framtíð götunnar og telja fólk eiga eftir að flykkjast þangað í framtíðinni með verslanir og gallerí, sérstaklega eftir að Listaháskóla Íslands var úthlutað lóð í miðbænum.
En þegar gatan er gengin í dag er hún dapurleg að sjá og verslunarmenn við hana eru ekki ánægðir. „Ég man nú ekki til þess að borgin hafi gert neitt sérstakt fyrir Hverfisgötuna, þeir líta bara á hana sem umferðaræð, ekki sem hluta af miðbænum, ekki fær hún jólaljós eins og Laugavegurinn og Skólavörðustígurinn. Það leyfa allir svæðinu að drabbast niður,“ segir Sigurður Sigurðsson í versluninni 2001.