Hundrað þúsundasta flugvélin á árinu fer um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið í dag og hafa frá upphafi aldrei verið fleiri á einu ári. Þetta segir í tilkynningu frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.
Ætla má að um svæðið fari alls um 105.000 vélar á öllu árinu 2007, sem er um 43% aukning umferðar á aðeins tíu árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Bent er á að á sama tíma og umferðin um íslenska flugstjórnarsvæðið aukist gríðarlega hafi fjöldi flugumferðarstjóra við störf hinsvegar haldist nánast óbreyttur, með tilheyrandi álagi á þá og aðra starfsmenn í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.
„Flugumferðarstjórar sjá ástæðu til þess að nefna framangreint á þessum merkilegu tímamótum og vekja jafnframt athygli á því að áfallalaus aukning flugumferðar er ekki sjálfgefin. Í því sambandi má benda á skýrslu nefndar á vegum samgönguráðherra frá árinu 1997 um störf flugumferðarstjóra. Þar kom fram að á tímabilinu 1987-1997 hefði flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið aukist um 35%. Á sama tíma hefði fjöldi flugumferðarstjóra hins vegar verið nánast óbreyttur. Þessari umferðaraukningu var mætt með auknu vinnuframlagi flugumferðarstjóra, betri tæknibúnaði og hagræðingu í vinnuskipulagi. Einnig kom fram í skýrslunni að miklar kröfur væru gerðar til flugumferðarstjóra um árvekni og fumlausa starfshætti á álagstímum,“ segir í tilkynningunni.
Þessar kröfur hafa leitt til þess að flugumferðarstjórar þurfa að hætta störfum fyrr en aðrir launamenn á vinnumarkaðinum. Þá felst í starfinu að vinna verður á vöktum og vinnuálag er oft á tíðum meira en almennt gerist, segir jafnframt í tilkynningunni.
„Fáir verða varir við árangur erfiðis flugumferðarstjóra í starfi þeirra „á bak við tjöldin“. Þannig á það líka að vera og bendir þá ekki til annars en að flugumferðarstjórar skili verkum sínum af prýði. Það sem bent er á hér að framan er hins vegar alþjóðlegt vandamál, því miður. Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra hafa þannig verulegar áhyggjur af því að flugumferðarstjórum við störf víða um heim fjölgi ekki í samræmi við aukin umsvif í fluginu. Þetta eykur álag á starfsmenn við flugumferðarstjórn með tilheyrandi hættu á þreytu og streitu og getur haft áhrif á flugöryggi, eðli málsins samkvæmt.“