Segja TETRA góða viðbót við VHF-kerfið

Tetra-talstöð.
Tetra-talstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Slysavarnafélagið Landsbjörg segir í yfirlýsingu, að það reki mjög öflugt VHF fjarskiptakerfi, sem sé aðal fjarskiptakerfi björgunarsveita. Mikið hafi verið lagt í uppbyggingu þess og rekstur og sé það stefna félagsins að svo verði áfram og engin áform uppi um að leggja það niður.

Yfirslýsingin er send vegna ummæla björgunarsveitarmanna á Austurlandi í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi þar sem kom fram mikil óánægja með TETRA fjarskiptakerfið.

Í yfirlýsingunni segir, að TETRA fjarskiptakerfið sé góð viðbót við núverandi fjarskipta- og stjórnkerfi björgunarsveitanna og því sé Slysavarnafélagið Landsbjörg fylgjandi áframhaldandi öflugri uppbyggingu kerfisins.

„Í því felast auknir möguleikar sem ekki eru í VHF kerfinu, svo sem ferilvöktun, betri fjarskipti milli landssvæða sem og milli mismunandi viðbragðsaðila. Reynsla björgunarsveitanna af TETRA kerfinu hingað til hefur verið góð og er það að virka mjög vel fyrir björgunarsveitir. Þær hafa því tekið virkan þátt í uppsetningu á sendum kerfisins og í skráningu á þeim stöðum þar sem samband er ekki gott svo bæta megi úr því. Slysavarnafélagið Landsbjörg mun í framtíðinni styðja frekar við uppbyggingu kerfisins, sem hvergi nærri er lokið, og taka þátt í að leysa þau vandamál sem upp kunna að koma," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert