Vill skýringar að konan lá látin í viku

mbl.is/Kristinn
Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur óskað eftir svörum frá stjórn hússjóðs ÖBÍ í Hátúni, um hvernig kona gat legið látin í íbúð sinni í húsinu í rúma viku án þess að hennar væri vitjað. Konan fannst látin 5. desember. „Fólkið sem þarna býr þarf meiri þjónustu en gengur og gerist fötlunar sinnar vegna og svona á ekki að geta gerst," segir Sigursteinn.

Fyrir tveimur árum kom upp svipað tilfelli þegar íbúi fannst látinn í íbúð sinni eftir nokkra daga. Sigursteinn vill fá svör frá sjóðnum um til hvaða öryggisráðstafana hafi verið gripið síðan þá og af hverju honum var ekki tilkynnt um lát konunnar fyrr en tveimur dögum síðar.

Helgi Hjörvar, formaður stjórnar hússjóðsins, harmar atvikið. „Það hefur verið lögð áhersla á að þjónustuaðilar í húsinu hafi augun opin gagnvart þessu. Það er hins vegar ákveðinn hluti íbúa sem hvorki er með reglulega félags- eða heilbrigðisþjónustu," segir Helgi. „Sumir þeirra eru með lítið félagslegt öryggisnet og því útilokað að koma algjörlega í veg fyrir þetta."

Helgi segir stjórn húsfélagsins eiga í viðræðum við þjónustuaðila um að koma á reglulegum stuðningi við íbúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert