Hef aldrei orðið gjaldþrota

Hann segir málið allt með ólíkindum. Hann hafi verið merktur gjaldþrota í fjögur ár án þess að sú sé raunin. „Það var gerð aðfararbeiðni að mér fyrir mörgum árum og ég fór bara til sýslumanns og borgaði allt eins og heiðarlegur maður." Engu að síður er merkingin til staðar og hún skapar ýmis óþægindi, til dæmis þarf maðurinn að hringja í tollstjóra í hvert skipti sem barnabætur eru greiddar út til þess að ganga eftir því að þær fáist. „Auk þess er leiðinlegt til afspurnar að vera með gjaldþrot í skráningu."

Svörin sem maðurinn fær hjá tollstjóra eru að þetta séu tæknileg vandræði í tölvukerfinu og erfiðlega gangi að laga það. Margir aðrir séu í þessari stöðu.

Edda Símonardóttir, forstöðumaður innheimtusviðs tollstjóra, segir af og frá að menn séu skráðir gjaldþrota nema þeir hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota. Upplýsingar um það komi frá héraðsdómstólum sem úrskurði um gjaldþrot.

Aðrir starfsmenn tollstjóra sem 24 stundir töluðu við könnuðust þó við málið og segja lagfæringuna vera í vinnslu en þetta eigi ekki að koma að sök því sé fólki flett upp í kerfinu sjáist hið rétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert