Í nótt sem leið urðu alvarlegar bilanir og rekstrartruflanir á flutningskerfi Landsnets þegar djúp lægð gekk yfir vestanvert landið með ofsaveðri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.
Um kl.1:40 leysti 132 kV Vatnshamralína 1 (Vatnshamrar – Brennimelur) út með þeim afleiðingum að spennir fór út í aðveitustöðinni í Laxárvatni við Blönduós auk þess sem einn skáli Fjarðaáls á Reyðarfirði fór út. Við það einangraðist Fljótsdalsstöð frá kerfinu. Þá fór í stuttan tíma út um 20 MW álag hjá almennum notendum á Austurlandi. Við þetta fór einnig út 132 kV Hólalína 1 (Teigarhorn – Hólar við Höfn) og báðar vélar fóru út í Kröflustöð. Í tengslum við þessa truflun á vesturvæng kerfisins fór einnig út 66 kV Laxárlína 1 (Laxá – Rangárvellir á Akureyri).
Ekki er vitað um ástæðu þess að Vatnshamralína 1 fór út en leiða má að því líkum að um samslátt á vírum hafi verið að ræða enda ofsaveður á svæðinu. Línan fór inn aftur um kl.3:13 og er í rekstri.
Um kl 2:33 varð alvarleg bilun í 220 kV Brennimelslínu 1 (Geitháls – Brennimelur) þegar turn nr. 115 í Þyrilsnesi í innanverðum Hvalfirði brotnaði undan veðurofsanum. Um er að ræða stagað stálgrindarmastur. Við þetta fóru út skáli 2 hjá Norðuráli í Hvalfirði, álag fór út hjá Ísal í Straumsvík og allt álagið hjá Járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Auk þessa fóru úr rekstri allar vélar í virkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði.
Þá fór 132 kV Hrútatungulína 1 (Hrútatunga – Vatnshamrar) úr rekstri um kl. 3.10 með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð víða á Vesturlandi. Þessi rekstrartruflun stóð þó aðeins yfir í nokkrar mínútur.
Loks ber að geta að alvarleg bilun varð um kl 4:30 í 132 kV Geiradalslínu 1 (Glerárskógar – Geiradalur) þegar tvær tréstæður nr. 203 og 204 brotnuðu við Gilsfjörð í Saurbæ.
Starfsmenn Landsnets hafa unnið að viðgerð Brennimelslínu 1 í Hvalfirði og Geiradalslínu 1 í Saurbæ frá því í nótt ásamt með verktökum. Viðgerð verður hraðað eins og kostur er en ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær þeim verður lokið.