Veðurstofa Íslands varar við stormi víða um land seint í kvöld og á morgun. Stormsins fer líklega að gæta upp úr miðnætti og verða vart á landinu fram á seinnihluta föstudags. Lægðin sem er að koma upp að landinu mun vera dýpri og víðáttumeiri en sú sem gekk yfir umliðna nótt. Er þetta þriðja óveðrið, sem gengur yfir sunnan- og vestanvert landið í vikunni.
Í fréttatilkynningu frá samhæfingarstöðinni í Reykjavík segir að hún verði mönnuð á meðan veðrið gengur yfir, og verður í nánu sambandi við Veðurstofuna um framvindu.
Í samhæfingarstöðinni verða fulltrúar almannavarnadeildar og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, landsstjórnar björgunarsveita, lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu.
Gríðarlegur erill var hjá viðbragðsaðilum síðustu nótt vegna veðurs, og voru nokkur dæmi um að ekki tækist að sinna öllum verkefnum sem upp komu vegna anna. Þegar svo er má búast við að forgangsraða þurfi verkefnum. Fólk er hvatt til þess að fylgjast með veðurspá og gera ráðstafanir vegna muna sem gætu farið af stað í veðrinu.