Talsvert tjón varð að bænum Melum I í Árneshreppi í morgun þegar hluti járnklæðningar fauk af fjárhúsum á bænum. Fé var í húsunum en það sakaði ekki og verður flutt í önnur fjárhús til bráðabirgða þangað til hægt verður að setja nýtt þak á fjárhúsin.
Fram kemur á vefsíðunni litlihjalli.it.is, að mikið rok var í nótt og fram á morgun á svæðinu. Á veðurstöðinni í Litlu-Ávík fór vindhraðinn í hviðum í 36 metra á sekúndu eða 12 gömul vindstig.