Engar lagaheimildir eru fyrir gerð starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn og fjármálaráðuneytið telur að ekki sé unnt að gera slíka samninga án sérstakra heimilda. Slíkir samningar hafa þó verið gerðir við einstaka ríkisstarfsmenn í gegnum tíðina en ekkert yfirlit er yfir hversu margir þeir eru né hvaða einstaklingar hafa fengið þá.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í athugun umboðsmanns Alþingis á starfslokasamningum ríkisstarfsmanna. Umboðsmaður spurði fjármálaráðuneytið hvort lagareglur eða leiðbeinandi reglur væru til um starfslokasamninga ríkisstarfsmanna. Í svari ráðuneytisins kom fram sú afstaða að það teldi ekki unnt, án sérstakrar lagaheimildar, að gera starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn.
Þar sem sú afstaða sýndi að ekki væri lagaheimild fyrir slíkum samningum þótti umboðsmanni ekki tilefni til að athuga málið frekar. Hann beindi þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það kynnti þessa afstöðu sína fyrir forstöðumönnum ríkisstofnana.
Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir ráðuneytið ekki hafa neitt yfirlit yfir starfslokasamninga. „Við höfum ekki gert slíka samninga, erum ekki aðili að slíkum samningum sem aðrir kunna að hafa verið að gera og höfum því ekkert yfirlit yfir í hvaða mæli slíkir samningar kunna að hafa verið gerðir. Það hefur enginn."