Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á þáverandi sambýliskonu sína á heimili þeirra í janúar sl. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni hálfa milljón króna í bætur.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist á konuna inni á baðherbergi með þeim afleiðingum að hún hlaut ýmsa áverka. Hann neitaði sök og sagðist hafa verið að verjast konunni. Þá hefði hún meiðst við að ganga á dyrastaf, sennilega viljandi til að verða sér út um áverka.
Dómurinn taldi hins vegar framburð konunnar um árásina trúverðugan og vísaði m.a. til þess, að rannsóknargögn málsins og framburðir vitna bentu eindregið til þess að maðurinn hefði í tvígang áður veist þannig að konunni, að hún hafi haft raunhæfa ástæðu til að óttast hann.
Maðurinn var dæmdur á grundvelli 217. greinar almennra hegningarlaga um líkamsárás en hámarksrefsing samkvæmt þeirri grein er árs fangelsi. Segir dómurinn að árásin hafi verið talsvert heiftúðleg og hættuleg og það þyki auka á grófleika verknaðarins hve nákominn maðurinn var konunni en þau höfðu búið saman fyrir þetta og konan flutti til landsins gagngert til þess að hefja sambúð með manninum.
Fjallað var um mál þetta í Morgunblaðinu í sumar en þar sagði konan að maðurinn, sem er flugstjóri fraktflugvélar, hefði smyglað sér inn í landið en konan er frá Venesúela. Lögreglan á Suðurnesjum hóf í framhaldi af viðtalinu rannsókn á meintu smygli en rannsókninni var hætt.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er konan farin aftur til Venesúela en kom til til Íslands í nóvember til að bera vitni fyrir dómi vegna líkamsárásarákærunnar.