Aðgerðum í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð vegna óveðursins er lokið í bili, segir í tilkynningu frá Almannavörnum. Alls var sinnt um 350 aðstoðarbeiðnum vegna óveðursins á landinu í dag, auk daglegra verkefna viðbragðsaðila.
Samhæfingarstöðin hefur verið opin síðan kl. þrjú í nótt, þegar fyrstu áhrifa stormsins fór að gæta við SV-strönd landsins. Hátt í fjórða hundrað viðbragðsaðilar voru að störfum í dag frá lögreglu, slökkviliði, björgunarsveitum ásamt starfsmönnum sveitarfélaga.
Enn er vonsku veður víða á landinu og þeim tilmælum beint til fólks að fylgjast áfram með veðurspá og færð á vegum áður en það farið er af stað.