Frumvarp um breytingar á þingsköpum Alþingis var samþykkt sem lög á Alþingi nú undir kvöld með 43 atkvæðum gegn 7. Þingmenn VG greiddu atkvæði gegn frumvarpinu og gagnrýndu það harðlega við lokaatkvæðagreiðsluna.
Þingmenn annarra flokka lýstu hins vegar ánægju með frumvarpið og sögðust vona að það myndi leiða til þess að þingstörfin yrðu skilvirkari en m.a. er gert ráð fyrir því að ræðutími verði takmarkaður í öllum umræðum um mál.
Sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins m.a. að þegar hann kom fyrst á þing hefði hann upplifað málþóf á þinginu sem andlegt ofbeldi. „Síðustu nótt upplifði ég síðustu löngu ræðurnar á Alþingi," sagði Pétur.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, sem var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, hefði unnið vel í málinu og hann ætti ekki skilið þá gagnrýni sem hann hefði fengið á sig í umræðum um málið.