Vilja veita aðstoð vegna olíuþjónustumiðstöðvar

Höfnin í Vopnafirði.
Höfnin í Vopnafirði. mbl.is/Jón Sigurðsson.

Átta þingmenn Norðausturkjördæmis leggja til að ríkisstjórninni verði falið að aðstoða Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp við að undirbúa þjónustumiðstöð, sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæði.

Um er að ræða þingsályktunartillögu á Alþingi og er Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fyrsti flutningsmaður. Í greinargerð með tillögunni er vísað til þess, að iðnaðarráðuneytið sé að undirbúa að bjóða út olíuleit á Drekasvæði næsta haust og gera megi ráð fyrir að olíuleit hefjist þar árið 2009. Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafi ákveðið að stofna sameiginlegt fyrirtæki sem á að kanna hvort innanverður Bakkaflói henti undir þjónustumiðstöð fyrir áformaða olíuleit á Drekasvæði.

Sveitarfélögin áforma að láta kanna þann möguleika að gera sérstaka þjónustuhöfn í þessu skyni þar sem verði nauðsynlegur búnaður til að annast alla þá þjónustu sem veita þarf skipum sem annast olíuleit og eins skipum sem þjóna leitarskipunum.

Segja þingmennirnir, að leiði rannsóknir til þeirrar niðurstöðu að olía verði unnin á Drekasvæðinu muni slík höfn einnig nýtast til flutninga á gasi frá landinu þar sem trúlegast yrði lögð gaslögn frá vinnslusvæðinu í land við Bakkaflóa og þar reist gasþjöppunarstöð.

Einnig er áformað að sveitarfélögin taki að sér að hafa á svæðinu allan þann neyðar- og björgunarbúnað sem til þarf svo að unnt verði að bregðast við í neyðartilvikum í samstarfi við björgunarsveitir og Landhelgisgæslu.

„Umrætt svæði hefur átt undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti og íbúum þar fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Þetta skýrist aðallega af því að mikillar einhæfni gætir þar í atvinnulífi og sveiflur í sjávarútvegi og landbúnaði hafa haft afdrifaríkar afleiðingar. Því er mikils um vert að hugmyndir er kunna að geta snúið þeirri þróun við verði skoðaðar til hlítar. Leiði sú undirbúningsvinna sem fyrirhuguð er til þess að umrædd þjónustumiðstöð rísi við Bakkaflóa er líklegt að það verði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á öllu Norðausturlandi, ekki aðeins í sveitarfélögunum tveimur sem hafa frumkvæði að því að farið verði í þessa vinnu," segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert