Bílnum var stolið á þrjátíu sekúndum

mbl.is/Ómar

Subaru-bifreið Friðjóns Fannars Hermannssonar var stolið í gærmorgun í ofsaveðrinu í Reykjavík, svo hann stóð eftir á götunni í rokinu bíllaus og lyklalaus. Hann fann bílinn síðdegis í gær fyrir tilviljun.

Friðjón var að bera Morgunblaðið út við neðanverðan Laugaveg og skildi bílinn eftir í gangi á meðan hann stökk inn í hús til þess að skila af sér blaði. „Ég var eiginlega búinn og færði bílinn neðst á Laugaveginn til að bera út í síðustu húsin. Ég vék frá bílnum í svona þrjátíu sekúndur og þá heyrði ég að bílhurð var skellt. Ég leit við, því það var enginn á ferli, og sá bara í rassinn á bílnum þegar hann brunaði í burtu,“ sagði Friðjón.

Friðjón var með síma á sér og hringdi strax í Neyðarlínuna. „Þeir kölluðu þetta út strax en sögðu mér að ég þyrfti að fara upp á Hverfisgötu og tilkynna þetta. Það að labba þarna upp á lögreglustöð eins og veðrið var, var ekki það skemmtilegasta sem ég hef lent í.“ Það fyrsta sem Friðjóni datt í hug var að einhver félagi hans væri að gera at í honum en hann áttaði sig fljótt á því að svo var ekki. „Þetta er eiginlega of súrt til að vera grín. Ég held svona í alvörunni að það hafi einhver ógæfumaður rambað á bílinn í vonda veðrinu og ákveðið að grípa hann.“

Á sömu lyklakippu og bíllyklarnir voru húslyklar. Friðjón hafði áhyggjur af því og skipti í gær um hurðaskrárnar til öryggis og gerði sér síðan ferð niður í Brynju til að láta smíða fleiri lykla að nýju skránum.

Fannst fyrir tilviljun

„Þeir sögðu að fyrst ég væri með aukalykil skyldi ég bara keyra í burtu,“ sagði Friðjón. Búið var að gramsa í öllu lauslegu, en sá sem fékk bílinn „lánaðan“ hafði samt haft fyrir því að læsa honum kirfilega svo enginn gæti stolið honum!

Friðjón kvaðst hafa lært af þessu: „Það er að skilja ekki bílinn eftir í gangi. Eins að læsa bílnum. Það er eitthvað sem ég hef hlegið að í mörg ár – en nú held ég að ég hlæi ekki lengur að því,“ sagði Friðjón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert