,,Sögulegt samkomulag”

Þórunn Sveinbjarnardóttir flytur ávarp á Bali.
Þórunn Sveinbjarnardóttir flytur ávarp á Bali.

,,Þetta er sögulegt samkomulag,” sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra um samkomulag sem náðist á Balí eftir næturlanga fundi um að hefja víðtækar samningaviðræður um aðgerðir í loftslagsmálum, sem taki mið af niðurstöðum Vísindanefndar S.þ. um þörf á samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu í morgun.

,,Öll ríki heims taka þátt í nýjum viðræðum , líka stóru þróunarríkin sem eru að auka losun sína mikið og Bandaríkin, sem hafa verið fyrir utan Kýótó. Ríki heims hafa ákveðið að láta ekki stranda á ágreiningi um leiðir, en stefna þess í stað á sameiginlegt markmið um minnkun losunar á heimsvísu til að draga úr líkum á stórfelldum loftslagsbreytingum. Með fjórðu skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna höfum við fengið góða vísindalega leiðsögn um hvernig hægt er að mæta loftslagsvandanum. Balí-vegvísirinn er pólitísk leiðsögn sem byggir á þessarri nýju vísindalegu þekkingu. Það er mikið og erfitt verk framundan að útfæra þetta samkomulag og skipta byrðum á milli ríkja, en það er stórt skref að hefja það verk í samvinnu allra,“ er ennfremur haft eftir Þórunni.

Fyrirfram var talið að erfiðasta verkefni loftslagsfundarins í Balí yrði að ná samkomulagi um nýjar samningaviðræður ríkja heims um framtíð alþjóðasamvinnu í loftslagsmálum eftir að skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar rennur út árið 2012. Á Balí var samþykkt að stefna að gerð nýs allsherjarsamkomulags fyrir árslok 2009 um hertar aðgerðir til langs tíma gegn loftslagsbreytingum sem taki ið af Kýótó-bókuninni. Hið nýja samkomulag á að taka bæði til aðgerða til að draga úr losun og auka bindingu og aðgerða til að aðlagast loftslagsbreytingum, en talið er óhjákvæmilegt að veruleg hlýnun verði, eins þótt takist að draga verulega úr losun. Sérstaklega er fjallað um lykilaðgerðir til að ná þessum markmiðum á sviði tækni og fjármögnunar.

Auk samkomulagsins um framtíðarsamvinnu voru gerðar ýmsar samþykktir á Balí um að efla framkvæmd Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókunarinnar. Þar ber hæst samþykkt um sérstakan sjóð til að auðvelda þróunarríkjum að aðlagast loftslagsbreytingum og aðgerðir til efla þróun og yfirfærslu loftslagsvænnar tækni. Einnig var stigið skref áleiðis til að hvetja til aðgerða til að draga úr skógareyðingu, sem talin er valda um fimmtungi af losun gróðurhúsalofttegunda.

Miklar sviptingar voru í lok fundarins og mátti litlu muna að samkomulag næðist, þrátt fyrir að forseti Indónesíu, Yudhyono, og framkvæmdastjóri S.þ., Ban-Ki Moon, mættu á fundinn og hvettu fulltrúa til að ná samkomulagi á elleftu stundu. Eftir næturlanga samningafundi var boðað til fundar um morguninn og samningstexti lagður fram, en þá kom í ljós að örlítið vantaði upp á orðalag svo að þróunarríkin teldu sig geta sæst á það. Bandaríkin lögðust fyrst gegn breytingartillögu þróunarríkjanna og leit þá út fyrir að grunnur samkomulags væri hruninn, en eftir tilfinningaríka umræðu og uppnám í fundarsal sneri fulltrúi Bandaríkjanna við blaðinu og ljóst var að sátt næðist og "Balí-vegvísirinn" var samþykktur með lófaklappi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert