Tófa vogar sér sífellt nær þéttbýli

„Það er greinileg aukning á tófu í nágrenni Reykjavíkur, ég lá á 7 grenjum í sumar og veiddi um 70 dýr í landi Mosfellsbæjar og hluta af Þingvallasveitinni. Fyrir 10 árum var vaninn að finna eitt greni á ári og ekki nema 10-15 dýr,“ segir Guðni Bjarnason sem veiðir tófu að beiðni bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ.

Tófa hefur sést í auknum mæli í nágrenni Reykjavíkur og virðist voga sér sífellt nær þéttbýli.

Ágúst H. Bjarnason sagði í vefskrifum sínum fyrir skömmu frá spakri tófu sem hann sá í grennd við Ikea verslunina og Guðmundur Björnsson, meindýraeyðir hjá Reykjavíkurborg, segir ekki óalgengt að sjáist til tófu við Rauðhóla, undir Úlfarsfelli og jafnvel hafi sést til hennar í Húsahverfinu í Grafarvogi. Reykjavíkurborg sé þó aðeins með skipulagða grenjavinnslu undir Esjunni og ekki sé leitað víðar.

Guðni Bjarnason segir aukningu tófunnar áhyggjuefni því hún leggist á fugl. „Hún étur mikið af fugli og leggst þar næst á lömb,“ segir Guðni sem veit af bæ í Þingvallasveit sem missti um 70 lömb í tófu fyrir nokkrum árum.

Guðni rekur slaka rjúpnaveiði í ár að miklu leyti til tófunnar og segir rjúpnaveiðimenn hafa séð tófuspor út um allt en lítið af fugli. „Ég bý á Hraðastöðum í Mosfellsdal og rjúpan hefur verið friðuð hér frá árinu 1999. Fyrir þann tíma var meira af rjúpu hér en nú, þrátt fyrir að þá hafi mátt veiða,“ segir Guðni.

Hann segist jafnvel hafa þurft að skjóta tófu að næturlagi í húsagörðum Mosfellsbænum. Guðni telur að ef markviss grenjavinnsla væri í öllum hreppum myndi það bæta ástandið töluvert, yfirvöld þurfi að styðja við veiðina og ráða til þess atvinnumenn.

Talsmaður heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs segir að ekki hafi orðið teljandi aukning á tófu í grennd við bæjarfélögin þó erfitt sé að segja til um það þar sem markviss grenjavinnsla fari ekki fram. Engin ógn stafi þar af dýrunum þar sem ekki sé um landbúnaðarhéruð að ræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert