Gæslumaður golfvallarins í Þorlákshöfn tók eftir því síðastliðinn fimmtudag að búið var að brjóta upp golfboltaskammtara og stela úr honum á milli 2000 og 3000 æfingagolfkúlum. Þetta mun hafa gerst á tímabilinu frá 29. nóvember til 13. desember síðastliðinn.
Fyrir rúmum mánuði var um 2000 golfkúlum stolið úr sams konar sjálfsala við golfvöllinn á Selfossi og er það mál óupplýst. Lögreglan á Selfossi segir, að ekki séu vísbendingar um hvort sömu menn tengist báðum þessum málum en þeir séu þá vel byrgir af kúlum og einhver ætti að geta orðið var við það.
Biður lögreglan alla þá sem veitt geta upplýsingar um báða þessa þjófnaði að hafa samband í síma 480 1010.