Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 skilorðsbundna, fyrir þrjár líkamsárásir, þar af eina sérlega hættulega. Hann var einnig dæmdur til að greiða öðrum manninum, sem hann réðist á, 275 þúsund krónur í bætur og hinum 95 þúsund auk málskostnaðar.
Maðurinn var fundinn sekur um að hafa veist að manni, sem sat í bíl á Eskifirði í maí í vor og slá hann í andlitið í gegnum opna rúðu. Síðar sama kvöld sló hann manninn nokkur högg með golfkylfu í höfuðið með þeim afleiðingum, að sá sem varð fyrir höggunum fékk m.a. heilablæðingu og mar á heila. Þá sló árásarmaðurinn annan mann í öxlina með golfkylfunni.
Í dómnum segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að maðurinn hafi á afar greinargóðan hátt játað háttsemi sína en á hinn bóginn sé litið til þess að í málinu sé hann sakfelldur fyrir þrjár fyrirvaralausar líkamsárásir af litlu tilefni. Einnig sé höfð hliðsjón af því að um einbeittan ásetning var að ræða þar sem maðurinn gerði sér sérstaka ferð á hendur frá Egilsstöðum til Eskifjarðar að næturlagi til að ganga þar í skrokk á mönnum.
Loks segist dómurinn líta til þess, að maðurinn beitti stórhættulegri aðferð við atlögu sína gagnvart öðrum manninum og þyki ljóst að hún hefði getað haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en raun varð á.