Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar

Stofnun nýs dótturfélags Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, LP, er í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að sögn Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar.

Segir hann að í sáttmálanum sé þess sérstaklega getið að orkufyrirtækin skuli eiga í samstarfi við einkaaðila um útrás í orkumálum og hafi Landsvirkjun talið það bestu leiðina að því markmiði að setja á stofn hlutafélag til að draga úr fjárhagsáhættu Landsvirkjunar. Segir hann ekki ástæðu til að forðast verkefni sem þetta í ljósi reynslu Orkuveitu Reykjavíkur af Reykjavík Energy Invest, REI.

„Fyrirtækið verður alfarið í eigu Landsvirkjunar og ekki stendur til að breyta því fyrirkomulagi. Landsvirkjun Power getur hins vegar tekið þátt í samstarfsverkefnum við aðra aðila í gegnum dótturfyrirtæki eins og Hydrocraft Invest, sem Landsvirkjun Power á til helminga á móti Landsbankanum.“

Hið nýja fyrirtæki tekur til starfa um áramótin, en því er meðal annars ætlað að taka þátt í orkutengdum útrásarverkefnum. Starfsmenn verða um 30-40 talsins og eigið fé fyrirtækisins verður átta milljarðar króna.

Bjarni Bjarnason, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, verður forstjóri hins nýja fyrirtækis og segir hann að verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar verði flutt yfir til LP, en sviðið sér um rannsóknar- og byggingarvinnu við nýjar virkjanir Landsvirkjunar. Bjarni segir ekki rétt að lýsa fyrirtækinu sem áhættufyrirtæki eða starfsemi þess sem áhættustarfsemi. „Öllum rekstri fylgir áhætta, en áhætta Landsvirkjun Power verður ekki meiri en annarra sambærilegra fyrirtækja. Hugmyndin er ekki sú að fara út í stórar fjárfestingar, enda fjárfestingargetan ekki mikil.“

Mjög jákvætt skref

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist telja stofnun Landsvirkjun Power mjög jákvætt skref. „Þetta er algerlega í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og ég fagna þessari ákvörðun Landsvirkjunar,“ segir Össur. „Ég hef lengi sagt að fyrirtækið eigi að leggja meiri áherslu á útrás, enda býr Landsvirkjun yfir mikilli reynslu og finna á henni viðfang erlendis.“

Segir Össur að sé fólki alvara í því að vinna á orkufátækt í heiminum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá sé það skref í rétta átt að Landsvirkjun beiti sér frekar á því sviði.

Össur segir það form sem valið hefur verið skynsamlegt, enda verði með stofnun Landsvirkjun Power til farvegur fyrir Landsvirkjun til að tengjast fjármálafyrirtækjum í einstökum verkefnum án þess að fyrirtækið bindi sig endilega einum samstarfsaðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert