Mátti ekki flytja kýrnar með sér

Landbúnaðarstofnun bannaði Kristni Björnssyni, nautgripabónda, að flytja fimmtíu holdakýr úr Flóahreppi yfir í Skaftárhrepp á grundvelli smitvarna. Kristinn hefur skotið málinu til landbúnaðarráðherra og krefst skaðabóta.

Snemma í haust seldi Kristinn jörð sína á Arnarhóli í Flóahreppi og festi kaup á jörðinni Langholti í Skaftárhreppi með það í huga að geta aukið umsvif sín í nautakjötsræktun úr holdagripum. Eftir að kaupin voru gengin í gegn varð honum ljóst að óleyfilegt væri að flytja nautgripi milli sýslumarka. Í Skaftárhreppi hafi nefnilega hvorki komið upp riða né garnaveiki, líkt og í Flóahreppi.

Kristinn segir á fréttavefnum Suðurlandi.is, að engir smitsjúkdómar hafi greinst á Arnarhóli og alls óvíst hvort kýrnar þaðan hafi verið smitaðar. „Ég þurfti því að slátra heilum bústofni sem ég hef ræktað alveg frá grunni undanfarin sjö ár. Afurðatjónið er heilmikið því það stóð ekki til að losna við gripina nærri strax. Sumir áttu ekki fara í slátrum fyrr en 2009, aðrir einhvern tímann á næsta ári," segir Kristinn.

„Auðvitað eiga að vera einhverjar smitvarnir en á móti verður að vera sveigjanleiki svo að landbúnaður geti dafnað í landinu. Ég var komin í þá stöðu að stækka annað hvort búið eða einfaldlega hætta. Samkvæmt lögum má ég hins vegar aðeins þróa starfsemina inni á smitsvæði sem gerir það að verkum að landbúnaður á „hreinum" svæðum eins og Skaftárhreppi nær ekki dafna eðlilega," segir Kristinn og telur gæta ákveðins tvískinnungs í umræðunni.

„Á meðan menn tala frjálslega um innflutning á kjöti má greinilega ekki teyma belju milli tveggja hólma." 

Suðurland.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert