Steinunn Hildur Truesdale, liðþjálfi í landgönguliði Bandaríkjahers, bindur nú vonir við fyrirhugaðar skurðaðgerðir vegna alvarlegra stríðsmeiðsla sem hún hlaut er hún gegndi herþjónustu í Írak árið 2004. Steinunn hefur verið í hernum frá 2001 og var í sinni annarri Íraksferð þegar hún særðist. Var hún í hertrukk sem lenti á skriðdrekasprengju með þeim afleiðingum að bíllinn sprakk í loft upp.
Hún hlaut heilaskaða og fjórir hálsliðir ásamt þremur hryggjarliðum í mjóbaki eyðilögðust. Hún getur samt gengið þótt hún hafi ekki burði til að annast dætur sínar tvær upp á eigin spýtur. Hefur móðir hennar því flust til hennar í herstöðina þar sem Steinunn býr í Kaliforníu. „Ég hef enga tilfinningu í tám, iljum og ökklum, en get gengið nokkurn veginn. Ég fer í tvo uppskurði í janúar og vona að þetta lagist með þeim.“
Steinunn fékk áfallastreituröskun og fékk síendurteknar martraðir eftir árásina og segir því andleg áhrif ekki síður þungbær en hin líkamlegu.
Steinunn segir herinn ekki hafa not fyrir hana lengur og hann hafi ekki komið vel fram við hana sem særðan hermann af vígvelli, þótt mál hafi lagast upp á síðkastið. „Við höfum öll fundið fyrir því,“ segir hún og vísar þar til annarra í hennar stöðu.