Tvö umferðarslys urðu um helgina í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli og eru þau bæði rakin til mikillar hálku á vegum. Annað slysið varð við Ásmundarstaði í Ásahreppi en þar fór jeppi út af veginum og valt eina veltu. Þrjú ungmenni voru í bílnum og fékk eitt þeirra lítilsháttar meiðsli.
Þá valt bíll í Skaftárhreppi við Kúðafljót á aðfaranótt sunnudag. Einn maður var í bílnum, sem fór nokkrar veltur og hafnaði á hliðinni í vatni. Ökumaðurinn slapp ómeiddur. Lögregla segir, að mikil hálka hafi verið á veginum en þarna rigndi ofan í mikla ísingu.