Aurskriður féllu í Eyrarfjalli

Aurskriður féllu í Óshlíð í nótt.
Aurskriður féllu í Óshlíð í nótt. mbl.is/Brynjar Gauti

Búið er að opna veginn milli Hnífsdals og Ísafjarðar en samkvæmt lögreglunni á Ísafirði féllu á milli fjórar og fimm miklar aurskriður þar í nótt enda var veginum lokað fyrir allri umferð. Lögreglan varar við grjóti á leiðinni til Bolungavíkur en Vegagerðin vinnur nú að hreinsun.

Fjórar til fimm aurskriður féllu á Hnífsdalsveg og ein stór úr Óshlíð. 

Mikið rigndi á Vestfjörðum í nótt og höfðu ræsi og niðurföll á Ísafirði vart undan og flæddi  inn í kjallarann á sjúkrahúsinu og mun slökkviliðið hafa starfað að því í nótt að dæla upp úr honum. 

„Þetta var ekki eðlilega mikil rigning, það var alveg rétt ákvörðun að loka veginum," sagði varðstjóri lögreglunnar á Ísafirði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Stífluð yfirföll á höfuðborgarsvæðinu 

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti einnig útköllum vegna flóða í nótt. Að sögn varðstjóra var farið í um sex útköll í miðborginni og Hafnarfirði en hvergi var um meiriháttar tjón að ræða.

Rólegt var hjá lögreglunni þrátt fyrir storm og veðurham, það þurfti ekki að kalla út björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu. 

Sömuleiðis var allt rólegt á Suðurnesjum og ekki þurfti að kalla út björgunarsveitir þar í nótt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert