Á sumum eintökum nýþýddrar Biblíu má finna tákn sem rekja má aftur til bronsaldar, eða um 1800-500 fyrir Krist. Táknið, sem oftast er nefnt sólkrossinn, er einnig þekkt sem kross Óðins úr goðafræðunum, en kristnin hefur einnig tekið táknið upp á sína arma, eins og Karl Sigurbjörnsson, biskup og stjórnarformaður Biblíufélagsins, sem gefur út Biblíuna, bendir á.
„Ásatrúarmenn hér og víðar á Norðurlöndum hafa eignað sér þetta tákn. Í kristinni táknfræði táknar kross inni í hring gjarnan alheiminn og fjórar álfur hans og vísar til þess að Kristur er frelsari alls heimsins. Það er þó ævagamalt í kristninni, þekkist frá fyrstu öldum kristninnar við austanvert Miðjarðarhaf og er einkar algengt í keltneskri skreytilist frá 7. öld. Það er því óhætt að fullyrða að þetta sé fornhelgað kristið tákn sem ásatrúarmenn hafa tekið sér í seinni tíð, tákn sem notað hefur verið óslitið í kirkjulist og tilbeiðslu um allan hinn kristna heim hátt í tvö þúsund ár," segir Karl.