Kom berklasmitaður til Íslands

Landspítali.
Landspítali.

Í síðasta mánuði var sjúklingur lagður inn á Landspítala vegna lungnasýkingar. Rannsókn leiddi í ljós að hann var haldinn berklum. Um er að ræða 23 ára gamlan karlmann frá Litháen sem kom til Íslands í janúar 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Litháen greindist hann með berkla þar í landi sumarið 2005.


Hafin var berklameðferð sem ekki var lokið þegar hann útskrifaðist í mars 2006 og var hann þá enn með virka berkla. Af ókunnum ástæðum virðist meðferð utan spítala ekki hafa verið lokið.

Ónæmir fyrir venjulegum berklalyfjum


Berklarnir sem sjúklingurinn var haldinn voru ónæmir fyrir mörgum venjulegum berklalyfjum. Líklegt má telja að berklarnir séu nú einnig ónæmir fyrir mörgum af þeim varalyfjum sem tiltæk eru, en beðið er eftir frekari ónæmisprófum. Þótt sjúklingurinn sé enn með virka berkla hefur
líðan hans batnað frá því að meðferð hófst. Þetta kemur fram í farsóttarfréttum landlæknisembættisins.

Þeir rannsakaðir sem hafa haft samskipti við manninn

Miðstöð sóttvarna við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur með höndum að rannsaka það fólk hér á landi sem sjúklingurinn hefur haft samneyti við með það fyrir augum að rekja hugsanlegt smit.

„Fjölónæmir berklar eru mikið vandamál í mörgum fyrrum Sovétríkjum, einkum Eystrasaltsríkjunum. Eftir að þau gerðust fullgildir aðilar að Evrópusambandinu (ESB), og þar með EES, þurfa þegnar þessara ríkja ekki dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi og þurfa því ekki að skila heilbrigðisvottorði vegna slíkra leyfa.

Í Rúmeníu og Búlgaríu eru berklar mjög útbreiddir. Enda þótt þessi ríki hafa gerst aðilar að ESB þurfa þegnar þessara ríkja enn sem komið er að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi og þar með að skila
læknisvottorði þar sem gengið er úr skugga um berklasmit.

Af þessu má ráða að ekki eru möguleikar á að rannsaka alla þá sem koma til dvalar og atvinnu hér á landi með tilliti til berkla og annarra sjúkdóma eins og farið er fram á í verklagsreglum sóttvarnalæknis. Nauðsynlegt er að heilsugæslan og sjúkrahús í landinu séu vakandi fyrir berklum hjá þeim sem koma frá áðurnefndum ríkjum og til þeirra leita vegna einkenna frá loftvegum," að því er segir í farsóttarfréttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert