Sóknarfæri til framtíðar eru í útlöndum

„Landsvirkjun var frá upphafi stofnuð um það að selja raforku á alþjóðlegum samkeppnismarkaði,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, en með því að stofna hlutafélag nú um útrásarstarfsemina er áhættan takmörkuð við það fjármagn sem lagt er í félagið.

Dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, LP, mun taka til starfa eftir áramót. Fyrirtækið er stofnað utan um verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar sem ber ábyrgð á rannsóknum, hönnun og byggingu orkumannvirkja. Verkefni LP verða til að byrja með fyrst og fremst innanlands, m.a. að ljúka við Kárahnjúkavirkjun, undirbúa virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem og jarðvarmavirkjanir og djúpborun í Þingeyjarsýslu.

„Ef við eigum að geta nýtt okkur þá þekkingu, færni og reynslu sem býr í starfsemi okkar og starfsfólki þá þurfum við í framtíðinni að hugsa til þess að fara í alþjóðleg verkefni,“ segir Þorsteinn. Sé litið til næstu 5-10 ára sé ljóst að vaxtarmöguleikar fyrirtækisins séu mestir utan landsteinanna. „Því viljum við þegar hefjast handa við að efla fyrirtækið alþjóðlega.“

Útrásin undir einn hatt

Landsvirkjun er þegar í nokkrum útrásarverkefnum sem fara nú um áramót undir LP. Má þar nefna þátttöku í byggingu lítillar vatnsaflsvirkjunar á Grænlandi, hlut í fyrirtækinu Hecla sem starfar í Frakklandi við endurhönnun háspennukerfa sem og í svissnesku fyrirtæki sem starfar við endurbætur lítilla vatnsaflsvirkjana. Þá hefur Landsvirkjun verið að skoða möguleg verkefni við byggingu nýrra vatnsaflsvirkjana í Albanínu, svo dæmi séu tekin. Einnig átti Landsvirkjun hlut í fyrirtækinu Enex sem var seldur fyrr á árinu. Var að hluta til greitt fyrir hlutinn með hlutabréfum í Geysir Green Energy.

Hlutur Landsvirkjunar í fyrirtækinu Hydrocraft Invest, sem fyrirtækið á til helminga við Landsbankann, tilheyrir einnig LP. Hydrocraft er fjárfestingafyrirtæki á orkusviði sem var stofnað fyrr á þessu ári. Það er enn sem komið er ekki í neinum verkefnum, en hefur m.a. verið að horfa til fjárfestinga í vatnsaflsfyrirtækjum í Austur-Evrópu.

Jafnhliða þessu mun Landsvirkjun Power einnig leita að verkefnum á eigin vegum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert