ASÍ gerði könnun á jólamatnum í hádeginu í dag. Mikill verðmunur reyndist milli einstakra vara og einstakra verslana en ASÍ segir, að það veki þó athygli að innan við 4 krónum muni á einstökum vörum í Krónunni og Bónus í 23 skiptum af þeim 28 vörutegundum sem til voru í báðum verslunum.
ASÍ segir, að mestur verðmunur í prósentum hafi verið á ýmsum algengum smávörum. Þannig munaði yfir 100% á hæsta og lægsta verði á Fitty samlokubrauði frá Myllunni (136%); Ora grænum baunum 450 gr. (108,8%) og mandarínum/klementínum (100,8%). Mestu munar í krónum talið á dýrari vörum svo sem kjöti. Þannig munaði 709 kr. á kílóaverði á SS birkireyktu hangilæri, 269 kr. á kílóaverði á KEA hamborgarhrygg með beini og 251 kr. á kílóaverði á frosnum heilum kalkún.
Könnunin var gerð með þeim hætti að starfsmenn á vegum ASÍ fór í verslanir og tíndi vörur í körfu án þess að gera grein fyrir að um verðkönnun væri að ræða. Það var ekki fyrr en búið var að skanna inn allar vörur á kassa og gefa upp verð, að gerð var grein fyrir að um verðkönnun væri að ræða. Þá var óskað eftir að fá verðstrimla til að vinna úr. Var orðið við þeirri beiðni í 6 verslunum af 8. Í verslunum Hagkaupa í Skeifunni og í verslun Nóatúns við Hringbraut var því hafnað að afhenda verðstrimla og þar af leiðandi þátttöku í verðkönnuninni.