„Við myndum vilja sjá sambærilegt ákvæði og finna má í siðareglum lækna í siðareglum allra þeirra starfsstétta sem vinna með börn, hvort heldur er leik-, grunn- eða framhalsskólakennarar, leiðbeinendur, gangaverðir eða íþróttaþjálfarar," segir Sæunn Guðmundsdóttir, starfskona hjá Aflinu, systursamtökum Stígamóta á Norðurlandi. Vísar hún þar til 10. gr. siðareglna lækna, en þar er kveðið á um að ótilhlýðilegt sé „að læknir stofni til kynferðislegs sambands við sjúkling sem hann hefur til meðferðar". Sambærilegt orðalag er ekki að finna í núgildandi siðareglum kennara.
„Auðvitað finnst manni að það eigi ekki að þurfa að kveða á um þetta, en það er hins vegar ljóst að það hafa það ekki allir í sér að vita hvað er rétt og rangt siðferðilega. Það virðist því vera óhjákvæmilegt í þjóðfélaginu að leggja þarf bann við kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Og þá er bara best að það sé gert sem víðast, þar á meðal í siðareglum, því allar reglur hafa áhrif," segir Sæunn. Bendir hún á að samband, hvort heldur er kennara og nemanda eða læknis og sjúklings, verði að byggjast á gagnkvæmu trausti og að í þessum samböndum sé nær undantekningarlaust um að ræða samband þar sem aðilar eru ekki jafningjar.
Nýverið féll dómur í Héraðsdómur Norðurlands vestra þar sem kennari var dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislegt samband við nemanda sinn, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að kennarinn hefði brotið gegn 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þar kemur fram að hver sá sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis skuli sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára. Stúlkan hélt því fram að samband hennar og mannsins, sem jafnframt var knattspyrnuþjálfari hennar, hafi hafist árið 2002 þegar hún var 12 ára og varað til ársins 2006. Maðurinn neitaði því að kynferðislegt samband hefði hafist fyrr en árið 2005 þegar stúlkan var 14 ára.
„Persónulega finnst mér þetta [að kennari stofni ekki til kynferðissambands við nemanda sinn] vera innskrifað í þær reglur sem kennarar eiga að fara eftir, burtséð frá því hvort það standi í siðareglum eða ekki. Ég er þess fullviss að kennarar eru almennt sammála þessari skoðun," segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ). Aðspurður segir hann nýlegan dóm ekki hafa verið ræddan sérstaklega innan stjórnar KÍ né heldur hafi það verið rætt hvort ástæða sé til þess að breyta siðareglum kennara í framhaldinu af honum.
Að sögn Eiríks voru siðareglur kennara settar og samþykktar á þingi KÍ árið 2002 og taka þær til félagsmanna KÍ í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Bendir hann á að næsta þing KÍ verður haldið 9.-11. apríl nk. Spurður hvort stjórn KÍ muni leggja til breytingu á siðareglunum sem leggi bann við kynferðislegu sambandi milli kennara og nemanda segist Eiríkur ekki eiga von á því.
„Ég tel að þetta sé ein af þessum sjálfsögðu reglum sem ekki þurfi í raun og veru að tiltaka sérstaklega, en ef einhverjum finnst að svo þurfi að vera þá er ég alveg tilbúinn að ræða það á málefnalegan hátt," segir Eiríkur og bendir á að allir félagsmenn KÍ geti komið með tillögu um að málið verði tekið til umræðu á þinginu með það að markmiði að breyta siðareglunum.