Fær 1,5 milljónir í bætur fyrir meiðyrði

Magnús Ragnarsson.
Magnús Ragnarsson. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 365 miðla til að greiða Magnúsi Ragnarssyni, fyrrum sjónvarpsstjóra Skjás Eins, 1,5 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í DV í september á síðasta ári og Fréttablaðinu í janúar og febrúar á þessu ári. Ummælin voru einnig dæmd dauð og ómerk.

Að auki var fyrirtækið dæmt til að greiða Magnúsi 480 þúsund krónur í málskostnað og 480 þúsund til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum.

Í dómnum kemur fram, að DV hafi fjallað um einkalíf Magnúsar með óviðurkvæmilegum hætti. Segir dómurinn, að einkalíf manna, heimili og fjölskylda njóti friðhelgi samkvæmt stjórnarskrá og menn eigi samkvæmt því rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Sé ótvírætt að  rétturinn til þess að njóta friðar um einkahagi sína og lífshætti nái til þess að njóta friðar um hjúskaparslit sín, enda vart unnt að hugsa sér málefni sem höggva nær einkalífi manna en mál sem lúti að erfiðleikum í hjúskap.

Í frétt í Fréttablaðsins var m.a. sagt að Magnús væri kallaður „Maggi glæpur“ á markaðsdeild  365. Dómurinn segir að þessi ummæli séu móðgandi og meiðandi fyrir Magnús og feli í sér aðdróttun. Engu máli skiptir í þessu samhengi hvaða forsendur 365 miðlar hafi talið sig hafa til þess að skeyta viðurnefni þessu við nafn Magnúsar í fréttinni.

Fyrirsögn á annarri grein var „Geðþekkur geðsjúklingur," og fylgdi mynd af Magnúsi með. Í greininni sagði m.a., að dagskrárstefna  Skjás Eins væri í anda geðklofasjúklings, en geðklofasjúklingurinn sé geðþekkur. Er það mat dómsins að með því að birta stóra ljósmynd af Magnúsi við hlið yfirskriftarinnar ,,geðþekkur geðsjúklingur“ sé verið að vísa til hans á afar móðgandi hátt og drótta að geðheilsu hans.

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert