Hæstiréttur hefur sýknað fanga á Litla-Hrauni af ákæru fyrir að hafa slegið samfanga sinn hnefahögg í andlitið og nefbrotið hann í knattspyrnuleik á íþróttasvæði við fangelsið. Maðurinn var einnig sýknaður af ákæru fyrir að hafa verið með fíkniefni í fórum sínum.
Í héraðsdómi var fanginn dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir höggið og fíkniefnin. Hæstiréttur taldi hins vegar að ekki væri komin fram sönnun fyrir því, að maðurinn hefði vísvitandi slegið samfanga sinn.
Þá vísar Hæstiréttur til þess, að með þátttöku í knattspyrnu gangi menn af frjálsum vilja til leiks sem lúti ákveðnum reglum. Kunni háttsemi í leiknum, sem við aðrar aðstæður væri refsiverð, að vera refsilaus sé hún innan marka venjulegs leiks og í beinum tengslum við hann. Þótti réttinum ósannað að fanginn hefði farið út fyrir það sem vænta mætti við iðkun knattspyrnu þegar leikmönnum hlypi kapp í kinn.
Þá sýknaði Hæstiréttur manninn einnig af fíkniefnaákærunni þar sem hann hafði við rannsókn málsins ekki verið spurður hvort hann hefði haft vitneskju um fíkniefnin. Hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að maðurinn hafi vitað eða mátt vita af þeim í klefanum.