„Ég hugsa að það sé slegið til afgreiðslumanns hér í Reykjavík í hverri viku," segir Eyþór Víðisson, öryggisfræðingur hjá VSI-öryggishönnun og ráðgjöf. VSI sérhæfir sig í námskeiðahaldi fyrir starfsfólk verslana og þjónustufyrirtækja, en eftirspurn eftir námskeiðum um hvernig eigi að verjast og bregðast við ógnandi hegðun viðskiptavina hefur aukist mikið.
„Ég byrjaði fyrir tíu árum með þessi námskeið og þá fyrir starfsfólk geðdeilda og fangelsa. Núna er breytingin orðin sú að ég er nær eingöngu með svona námskeið í verslunum og þjónustufyrirtækjum."
Eyþór segir afgreiðslufólk almennt ekki upplýst um hvernig skuli bregðast við ógnandi hegðun viðskiptavina. „Þetta eru oft ungir krakkar sem halda að þetta eigi að vera svona, að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og hann hafi leyfi til að sýna starfsfólki yfirgang og dónaskap.
Krakkarnir sitja eftir með sektarkennd og spyrja sig um leið hvort þau hafi kannski gert eitthvað sem verðskuldi að þeim sé sýnd þessi framkoma," segir Eyþór.