Przemyslav Pawel Krymski, einn þeirra sem rauf farbann sem hann var úrskurðaður í af Héraðsdómi Suðurlands og staðfest var í Hæstarétti vegna gruns um aðild að nauðgun, var handtekinn af pólsku lögreglunni á landamærum Póllands og Þýskalands s.l. mánudag.
Íslenska ríkið gerði kröfu um að hann yrði framseldur til Íslands en yfirvöld í Póllandi hafa nú upplýst um að pólsk lög heimili ekki framsal eigin þegna til annarra landa, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Krymski er einn þriggja sem grunaðir um að hafa nauðgað ungri konu á Selfossi í október. Fór hann úr landi og braut þar með gegn farbannsúrskurði, þann 5. desember. Lögreglan á Selfossi hafði ekki látið lögregluna á Suðurnesjum, sem fer með löggæslu í Leifsstöð, vita af því að maðurinn væri í farbanni.
Lögreglan á Selfossi telur að annar Pólverji, sem grunaður er um að hafa tekið þátt í nauðguninni í október, hafi rofið farbann og yfirgefið landið. Lýst var eftir báðum mönnunum á Schengen-svæðinu.