Samtök atvinnulífsins segja, að kostnaður við að leggja núverandi raflínukerfi landsins í jörðu gæti numið yfir 300 milljörðum króna. Verði það almenn stefna að leggja raflínur í jörð muni flutningskostnaður raforku á Íslandi margfaldast og reikningurinn sendur til íslenskra fyrirtækja og heimila.
Þingmenn úr öllum flokkum Alþingis hafa sameinast um að leggja til að ríkisstjórn Íslands skipi nefnd til að móta stefnu um hvernig leggja megi á næstu árum og áratugum raflínur í jörð sem nú eru ofan jarðar. Á heimasíðu SA segir, að koma verði í ljós hvort jólagjöf þingmannanna verði á endanum metin til fjár. Þó er ljóst er að verðmiði hennar, m.v. núverandi aðstæður og fyrirliggjandi tækni, gæti hlaupið á yfir þrjú hundruð milljörðum króna.
Þessi kostnaður muni hindra stofnun nýrra fyrirtækja og draga úr hvata til nýsköpunar auk þess að draga úr lífsgæðum landsmanna. Flutningskostnaður raforku sé nú þegar tvöfalt hærri á Íslandi en á Norðurlöndunum, samkvæmt upplýsingum Landsnets, sem skýrist af miklum fjárfestingum og uppbyggingu á undanförnum árum.
Samtök atvinnulífsins segjast telja rétt að halda áfram lagningu jarðstrengja þar sem það er hagkvæmt og framkvæmanlegt en miðað við núverandi aðstæður og fyrirliggjandi tækni sé mikilvægara að efla svokallaða byggðalínu til að fyrirtæki út um allt land hafi aðgang að raforku til atvinnuuppbyggingar áður en leitað verði leiða til að grafa allar raflínur í jörð með tilheyrandi umhverfisraski og ómældum kostnaði. Benda megi á, að byggðalínan sé þegar fullnýtt og fyrir liggi að styrkja þurfi hana til að unnt sé að halda áfram atvinnuuppbyggingu á ákveðnum svæðum.
Þá segjast SA jafnframt telja það forgangsmál, að fjarskipti fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni verði bætt svo atvinnulíf þar geti setið við sama borð og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni þess.