Ekki um jólakort að ræða

Jólaóskin umdeilda
Jólaóskin umdeilda

Gísli Hrafn Atlason, sem fer fyrir karlahóp Femínistafélags Íslands, segir að um ákveðinn misskilning að ræða hjá Félagi ábyrgra feðra á Akureyri. Ekki sé um jólakort að ræða heldur jólaóskir sem félagið lét gera fyrir tveimur árum þar sem lögð eru fram helstu baráttumál félagsins.

„Þessi jólaósk um að karlar hætti að nauðga fór ekki í jólakort félagsins í ár. En í ár var gefið út jólakort með átta óskum hvað varðar jafnrétti kynjanna og var þessi jólaósk ekki þar á meðal. Þó full ástæða sé til þess að ræða um kynbundið ofbeldi allan ársins hring," segir Gísli Hrafn.

Félag ábyrgra feðra á Akureyri hefur sent Jafnréttisstofu kvörtun vegna jólaóskarinnar en hún sýnir mynd af jólasveininum Askasleiki sem heldur á spjaldi sem á stendur „Askasleikir óskar sér þess að karlar hætti að nauðga".

Félag ábyrgra feðra á Akureyri telur að kortið sé einstaklega ósmekklegt og það megi lesa út úr því að allir karlar séu nauðgarar og aldrei megi tengja hátíð barnanna við nauðganir. Félagið íhugar einnig að leggja fram kæru vegna útgáfu kortsins, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka