Gagnrýna skipun í dómaraembætti

Bæði Eggert Óskarsson, formaður Dómarafélagsins, og Pétur Kr. Hafstein, formaður nefndar sem mat hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara, gagnrýndu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að Þorsteinn Davíðsson skyldi hafa verið skipaður héraðsdómari þótt þrír umsækjendur um embættið hefðu verið metnir hæfari en hann. 

Í sama streng tók Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, í fréttum Sjónvarpsins. Hún situr í nefndinni en vék sæti í þessu máli. Árni M. Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra í málinu, sagðist hins vegar vera ósammála niðurstöðu nefndarinnar.

Fram kom að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem vék sæti í málinu, hefði ekki vikið sæti þegar skipað var í annað embætti héraðsdómara á síðasta ári þegar Þorsteinn var meðal umsækjenda.

Haft var eftir Birni í fréttum Sjónvarpsins, að ástæðan fyrir því að hann vék sæti nú hafi verið sú að hann gaf Þorsteini meðmæli eftir að hann hætti störfum sem aðstoðarmaður hans og þar með hefði hann tekið skýra afstöðu til hæfi hans og hæfni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert