Íslendingar orðnir 312 þúsund

Íslendingar eru orðnir rúmlega 312 þúsund.
Íslendingar eru orðnir rúmlega 312 þúsund.

Íslendingar voru 312.872 þann 1. desember samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, og hafði fjölgað um 5600 á árinu. Hagstofan segir, að undanfarin þrjú ár hafi fólksfjölgun verið óvenju hröð en nú dragi nokkuð úr henni. Árleg fólksfjölgun sé nú 1,8% samanborið við 2,6% frá 1. desember 2005 til 1. desember 2006 og 2,1% árið þar á undan.

Fólksfjölgun er samt mikil hvort sem litið er til annarra þjóða eða til fyrri tímabila hérlendis. Segir Hagstofan, að hafn mikil fólksfjölgun hafi ekki orðið hér á landi frá því um miðbik sjöunda áratugarins og í engu öðru Evrópulandi sé fólksfjölgun jafn mikil og hér. Fólksfjölgun í álfunni hefur verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum Evrópu er árleg fólksfjölgun meiri en 1%. 

Fram undir 1980 var mikil fólksfjölgun hérlendis nær eingöngu rakin til mikillar náttúrulegrar fjölgunar. Lífslíkur jukust alla 20. öldina og í samanburði við önnur Evrópulönd hefur fæðingartíðni hér á landi verið há. Við upphaf sjöunda áratugarins gat hver kona vænst þess að eignast fjögur börn á lífsleiðinni. Í fáum ríkjum á vesturlöndum varð fæðingartíðni jafn há á síðari hluta 20. aldar og hér.

Þótt fæðingartíðni sé enn há í evrópsku samhengi hefur uppsafnað frjósemishlutfall lækkað á undanförnum ártugum. Um þessar mundir eignast konur hér á landi rúmlega tvö börn um ævina. Fólksfjölgun undanfarin ár er þó öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum.

Frá 1. desember í fyrra til 1. desember í ár var fjöldi aðfluttra umfram brottflutta rúmlega 3.000. Á sama tíma voru fæddir umfram dána tæplega 2.600 talsins. Náttúruleg fólksfjölgun á árinu nam tæpu 0,8% en tíðni flutningsjöfnuðar var 1,1%. Talsvert hefur dregið úr flutningsjöfnuði frá því í fyrra en þá var tíðni flutningsjöfnuðar 1,8%. 

Talsvert hefur dregið úr flutningum til landsins frá því í september. Þetta á þó einungis við um karla. Hagstofan segir, að undanfarin ár hafi karlar verið mun fleiri en konur í flutningum til landsins enda hafi virkjana- og stóriðjuframkvæmdir og byggingariðnaður einkum höfðað til karla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert