Rannsókn lögreglu höfuðborgarsvæðisins á Fáskrúðsfjarðarmálinu svonefnda er lokið og var málið sent embætti ríkissaksóknara í dag. Lögregla leggur til að sex verði ákærðir. Niðurstaða lögregluembættisins er að rökstuddur grunur sé um stórfelld brot á lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum.
Alls eru sex manns í haldi vegna málsins. Varðhald yfir þremur þeirra var framlengt til 29. janúar næstkomandi, en einn er í varðhaldi til 10. janúar. Fimmti maðurinn afplánar þegar fangelsisvist vegna annarra mála, en sá sjötti er í haldi lögreglunnar í Færeyjum.
Alls lagt hald á um 40 kíló af fíkniefnum, þar af um 24 kíló af amfetamíni, 14 kíló af e-töfludufti og um 1.700 e-töflur.
Rannsókn fíkniefnadeildar lögreglunnar var umfangsmikil og teygði anga sína víða. Segir lögreglan, að mánuðum saman hafi staðið yfir rannsókn á hugsanlegum innflutningi á miklu magni af fíkniefnum hingað til lands sem síðar leiddi til handtöku þriggja manna í og við skútu á Fáskrúðsfirði að morgni 20. september sl. Í framhaldinu voru fleiri menn handteknir og yfirheyrðir.